Styrktar og Líknarsjóður gefur Frú Ragnheiði bíl

Í liðinni viku veitti Styrktar og Líknarsjóður Oddfellowreglunnar  á Íslandi Frú Ragnheiðar, verkefni Rauða krossins, fólksbíl sem mun verða notaður til að aðstoða skjólstæðinga verkefnisins við að komast í sértækari heilbrigðisþjónustu, félagsleg úrræði og vímuefnameðferðir.

Fólksbíllinn mun koma að góðum notum þar sem mikil þörf á þessari þjónustu fyrir skjólstæðinga Frú Ragnheiðar sem eru margir hverjir í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Þessir einstaklingar þurfa m.a. aðstoð við að komast í bráðaþjónustu geðsviðs, í vímuefnameðferðir, viðtöl við félagsráðgjafa, meðferð hjá smitsjúkdómadeild eða á bráðamóttökuna.  Þá mun fólksbíllinn nýtast í að koma fólki í öruggt skjól og vinna að því að koma málum þeirra í öruggan farveg.

 

Úr skýrlsu sem birt vara á haustfundi StLO um verkefnið : 

Verkefni sem kynnt var í vor sem er á vegum Rauða krossins, Frú Ragnheiður – samfélagsleg skaðaminnkun.

Frú Ragnheiður er sérinnréttaður bíll á vegum Rauða krossins í Reykjavík sem fer um götur Höfuðborgarsvæðisins sex kvöld í viku (frá 18:00-22:00) og þjónustar bæði heimilislausa einstaklinga og einstaklinga sem glíma við erfiðan vímuefnavanda. 

 400 einstaklingar leituðu í Frú Ragnheiði árið 2017 og voru heimsóknir um 3.000. Í bílnum fá einstaklingar heilbrigðisþjónustu eins og aðhlynningu sára, umbúðaskipti, saumatöku, sýklalyfjagjöf og almenna heilsufarsráðgjöf. Það er alltaf hjúkrunarfræðingur á vaktinni og læknir á bakvakt. Verkefnastýra aðstoðar síðan skjólstæðinga við að komast í sértækari heilbrigðisþjónustu yfir daginn. Einnig er boðið upp á nálaskiptaþjónustu og einstaklingar sem nota vímuefni í æð geta komið og sótt sér hreinar nálar, sprautur, nálabox og annað sem þarf til að draga úr líkum á smiti og sýkingum.  Einnig tekur verkefnið við notuðum sprautubúnaði og fargar honum á öruggan hátt á LSH. Þetta er liður í því að reyna að koma í veg fyrir að notaður sprautubúnaður verði eftir á götum borgarinnar.

Að auki fá einstaklingar vítamín, drykki og mat í bílnum en fólk sem leitar til Frú Ragnheiðar er oft svangt og þyrst. Síðan fær fólk svefnpoka, tjalddýnur og hlý föt, þetta er sérstaklega fyrir þá sem eru að sofa úti t.d. í bílakjöllurum. En heimilisleysi í Reykjavík hefur aukist um 95% á síðustu fimm árum.

 

Ein af brýnum þörfum verkefnisins er eftirfylgni með mörgum einstaklingum sem þiggja þjónustu Frú Ragnheiðar, þessi þjónusta fer fram yfir daginn og er að aðstoða skjólstæðinga með að komast í sértækari heilbrigðisþjónustu, félagsleg úrræði og vímuefnameðferðir.

Framkvæmdaráð mun leggja fram tillögu að leggja þeim til litla bifreið til þessa verkefnis og verði til afgreiðslu á þessu ári.

Nokkur dæmi um aðstoð við skjólstæðinga verkefnisins eru:

 - Fara með skjólstæðinga í læknaviðtal og ráðgjafaviðtal hjá SÁÁ 

- Fara með skjólstæðinga á bráðaþjónustu geðsviðs

- Fara með konur í meðgöngurof (fóstureyðingu)

- Fara með skjólstæðingum í vímuefnameðferðir

- Fara með skjólstæðinga á neyðarmóttöku fyrir kynferðisbrot

- Fara með skjólstæðingum í viðtal hjá félagsráðgjafa og í sértækari heilbrigðisþjónustu

- Allskonar önnur tilfallandi vettvangsþjónusta sem miðar af því, að koma fólki í öruggt skjól og/eða vinna að því að koma málum þeirra í farveg.