Sumardvalarheimili fátækra barna

Ár fyrri heimsstyrjaldarinnar 1914-1918 voru Íslendingum erfið. Harðæri var til lands og sjávar og keyrði um þverbak veturinn 1918 sem var sá kaldasti í manna minnum og hefur æ síðan gengið undir nafninu „frostaveturinn mikli“.Til að bæta gráu ofan á svart þess árs gekk þá illvíg inflúensupest, „spænska veikin“, sem líkja mátti við drepsóttir liðinna tíma og lagði jafnvel heilu fjölskyldurnar í gröfina.

 

Sumardvalarheimili fátækra barna
Fleiri myndir frá verkefninu

Það sem jók verulega á erfiðleika Íslendinga á styrjaldarárunum var að landið einangraðist. Þar sem Íslendingar höfðu heitið Bretum að selja þeim afurðir sínar gerðu Þjóðverjar, sem höfðu lengi yfirburði í hernaðarátökum á hafinu, harða hríð að skipum sem sigldu til og frá Íslandi, sökktu mörgum þeirra og tóku jafnvel herskildi. Var svo komið um hríð að ekki var hætt á slíkar siglingar og hafði það í för með sér alvarlegan skort á nauðsynjavörum á Íslandi. Vélbátaflotinn var meira og minna ónothæfur vegna skorts á olíu og togaraútgerðin, sem fjöldi fólks hafði byggt afkomu sína á, var óstarfhæf og togararnir bundnir við bryggju þar sem ekki fengust kol. Fór raunar svo að árið 1917 voru flestir íslensku togararnir seldir úr landi.

 Sú uppbygging sem verið hafði á fyrsta áratug nýrrar aldar fór því fyrir lítið. Fjöldi fólks leið skort og bitnaði það, eins og oft áður, ekki síst á börnum alþýðufólks sem mörg hver voru vannærð og auk þess illa haldin af kulda og hálfgerðu klæðleysi.

 Forystumönnum Oddfellowreglunnar rann eymd barnanna til rifja og þótt Reglan væri ekki vel fjáð eftir fjárútlát við rekstur Vífilsstaðahælisins kom hún samt til aðstoðar. Að frumkvæði Jóns Pálssonar, sem var aðalgjaldkeri Landsbankans og félagi í Reglunni var árið 1917 kosin nefnd í stúkunni Ingólfi sem fékk það verkefni að kanna hvort stúkan gæti gengist fyrir því að útvega fátækum börnum í Reykjavík góðan sumarverustað. Jón var sjálfur kjörinn í nefndina ásamt þeim Ólafi Björnssyni og Brynjúlfi Björnssyni. Unnu þeir að málinu næstu misserin en ekki varð af framkvæmdum það árið. Veturinn eftir, 1918, var hins vegar samþykkt að stúkan beitti sér fyrir því að allt að 20 börnum yrði gefinn kostur á sumarvist og yrði kostnaðurinn greiddur með frjálsum framlögum stúkubræðra. Það var þó ekki fyrr en árið 1919 að af framkvæmdum varð. Fengu Oddfellowar augastað á Brennistöðum í Borgarfirði en þar var allstórt barnaskólahús. Yfirráðamaður húsnæðis skólans, Jón Gíslason bóndi á Brennistöðum, tók málaleitan Reglunnar vel, svo og nágrannar hans í Borgarfirðinum sem gerðu hvað þeir gátu til þess að greiða fyrir því að þarna yrði sumarbúðum komið á fót.