Stofndagur Rebekkustúkunnar nr. 17, Þorbjargar.

Á fullveldisdaginn 1. desember 2012 var boðað til hátíðarfundar í Oddfellowhúsinu við Vonarstræti í Reykjavík.Tilefnið var að nú skyldi stofnuð ný Rebekkustúka. Ekki hafði verið stofnuð Rebekkustúka í Reykjavík í 16 ár.Húsið var opnað kl. 13:00 og hófu gestir að streyma prúðbúnir í hús.Hátíðarfundurinn var svo settur með viðhöfn kl. 14:00

Stofnfundurinn var mjög hátíðlegur og var Rebekkustúkan nr. 17 Þorbjörg stofnuð í umdæmi Hinnar Óháðu

 
 
 
 
 
 
Oddfellowreglu á Íslandi.   Fundinum stjórnaði Hávirðurlegur bróðir Stórsír Stefán B. Veturliðason.  Kom fram í ræðu hans mikil ánægja með þessa stúku stofnun sem hann taldi mjög svo tímabæra. 
 
Stofnsystkin voru  30 systur og einn bróðir.  Flest systkini  komu úr móðurstúkunni nr. 7 Þorgerði,  23 systur og einn bróðir.  Þrjár systur koma úr Rb.st.  nr. 4 Sigríði og ein systir kom úr Rb.st.  nr. 11 Steinunni. Barböru systur vígðu tvo innsækjendur sem urðu stofnfélagar.  Virðurleg systir  fyrrum meistari Brynja Hlíðar tók við stofnskrá úr hendi Stórsís.  Að lokinni formlegri stofnun gengu úr salnum allir þeir sem ekki höfðu Rebekkustig.  Í beinu framhaldi hófst svo innsetning stjórnar og skipaðra embættismanna. 
Fyrsti yfirmeistari stúkunnar er systir Hildigunnur Hlíðar.  Aðrir í fyrstu stjórn eru:  Systir Eydís Egilsdóttir, undirmeistari, systir Ingibjörg Hjartardóttir, ritari, systir Svandís Matthíasdóttir, gjaldkeri, og  systir Sigríður Jóhannsdóttir, féhirðir.   Á meðan innsetning fór fram var gestum boðið á aðra hæð Oddfellowhússins og þar var boðið uppá kaffi. Bróðir Jón Halldór Ásbjörnsson í stúkunni nr. 3 Hallveigu hélt fyrirlestur um Oddfellowhúsið og fornminjar við húsið.  Gerður var góður rómur að þessum fyrirlestri. 
Þegar svo athöfninni var lokið í Sólarsal gengu allir niður í Fólkvang þar sem fram fór móttaka með léttum veitingum. Virðuleg systir undirmeistari Eydís Egilsdóttir stjórnaði dagskránni sem þar fór fram.   Flutt voru ávörp ýmissa Oddfellowsystkina sem færðu nýju stúkunni gjafir. Katalin Lorincz sá um að leika ljúfa tóna á píanó fyrir gesti. Við erum afar þakklát  fyrir allar góðu gjafirnar sem stúkunni bárust . 

Þessi dagur verður okkur Þorbjargarsystkinum afar eftirminnilegur fyrir glæsileika og mikill hátíðarbragur fylgdi þessum degi.  Það var ánægjulegt fyrir stúkusystkini  hversu vel tókst til við allan undirbúning dagsins og sjá stúkuna fæðast eftir alla undirbúningsvinnuna í sumar.  Þorbjargarsystkini báru stolt barmnæluna  sem er afar falleg, lillablá í grunninn með gylltu Þ  og er prýdd með eyrarós. 

Að lokum þökkum við öllum þeim sem lögðu okkur lið við að gera þennan dag ógleymalegan.  Sérstaklega þökkum við stjórn stórstúkunnar fyrir fallega og hátíðlega athöfn sem fór afar vel fram.

Við horfum bjartsýn til framtíðar full tilhlökkunar að takast á við hið göfuga starf Oddfellowrelgunnar í okkar nýju stúku nr. 17 Þorbjörgu.

i.v.k.s.
Kristín Hraundal
Systir í stúkunni nr. 17 Þorbjörgu.