Regludeildir í Hafnarfirði veittu styrki til líknarmála
Þann 15. okt. s.l. afhentu allar deildir Oddfellowreglunnar I.O.O.F. í Hafnarfirði myndarlega fjárstyrki til líknarmála.
Þau félög sem styrkina hlutu eru:
- Sorgarmiðstöð
- Píeta samtökin
- Einstök börn
Styrkurinn nam 900 þ. kr. til hvers félags.
Á þessum fordæmalausu tímum eru erfiðleikar hjá mörgu fólki. Fjárhagsleg og andleg áföll dynja yfir sem aldrei fyrr. Þá er gott að geta leitað til fagaðila sem t.d. er að finna hjá félögum þeim sem þessa styrki hljóta.
Sorgarmiðstöð sinnir fræðslu og ráðgjöf til syrgjenda og þeirra sem vinna að velferð þeirra. Sorgarmiðstöð er samstarfsverkefni fjögurra grasrótarfélaga á sviði sorgarúrvinnslu.
Þau eru: Ný dögun stuðningur í sorg, Birta landssamtök, Ljónshjarta og Gleym mér ei styrktarfélag. Sorgarúrvinnsla miðar að bættri lýðheilsu með því að efla og styðja við andlega, líkamlega og félagslega heilsu fólks eftir ástvinamissi. Félagið var stofnað 6. nóvember 2018.
Píeta samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur. Til samtakanna geta leitað einstaklingar og aðstandendur sem vilja fá hjálp og viðtal hjá fagfólki. Samtökin opnuðu þjónustu sína vorið 2018.
Einstök börn er stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni. Ástæðan fyrir stofnun félagsins var sú að ákveðin börn í samfélaginu áttu ekki heima í neinum öðrum félagasamtökum og töldu þeir foreldrar sem hófu starfsemi Einstakra barna að þar gætu þau fundið sameiginlegan vettvang til að deila reynslu og vinna að bættum hag barna sinna. Félagið var stofnað 13. mars 1997.
Upphaf Oddfellowreglunnar á Íslandi I.O.O.F. má rekja aftur til 1. ágúst 1897
Allt starf Oddfellowreglunnar á Íslandi I.O.O.F. er grundvallað á einkunnarorðunum
Vinátta – Kærleikur - Sannleikur
Eitt af grunngildum Oddfellowreglunnar I.O.O.F. er að líkna bágstöddum.
Í Hafnarfirði eru starfandi tíu Regludeildir innan Oddfellowreglunnar á Íslandi I.O.O.F. Þær skiptast þannig:
- Fjórar bræðrastúkur;
- Þrjár Rebekkustúkur;
- Tvennar Oddfellowbúðir;
- Einar Rebekkubúðir;
Forsaga þessarar styrkveitingar er að veirufaraldurinn sem núna gengur yfir heimsbyggðina hefur sett allt starf Oddfellowreglunnar á Íslandi I.O.O.F. úr skorðum – og hefur fundahald deildanna í Hafnarfirði legið niðri stóran hluta ársins. Regludeildirnar í Hafnarfirði heita:
- St. nr. 14 Bjarni riddari
- St. nr. 16 Snorri goði
- St. nr. 21 Þorlákur helgi
- St. nr. 23 Gissur hvíti
- Rbst. nr. 8 Rannveig
- Rbst. nr. 12 Barbara
- Rbst. nr. 14 Elísabet
- Ob. nr. 3 Magnús
- Ob. nr. 7 Sjöstjarnan
- Rbb. nr. 2 Þórunn
Til þess að láta gott af sér leiða og styrkja þá sem minna mega sín – á þessum erfiðu tímum sem þjóðin upplifir núna - var sú ákvörðun tekin af stjórnendum Regludeildanna í Hafnarfirði að standa saman að fjárstyrkjum þeim sem hér eru veittir.