Oddfellowreglan styrkir tónlistarkennslu
Tónstofan og framangreindir tónlistarskólar eru sjálfstæðar stofnanir.
Tónstofa Valgerðar var stofnuð árið 1987 af dr. Valgerði Jónsdóttur. Í Tónstofu Valgerðar fer fram tónlistarsérkennsla og meðferð fyrir einstaklinga með ólíkar og mismiklar fatlanir sem ekki geta tileinkað sér hefðbundna tónlistarkennslu. Tónstofan er eini tónlistarskólinn í landinu þar sem nemendur með sérþarfir njóta forgangs. Þar geta þeir notið fjölþættrar tónlistarkennslu og þjálfunar sem beinist að því að efla tónnæmi þeirra og tónlistarfærni, bæta líðan þeirra og veita sköpunarþörfinni útrás. Í þessu felst sérstaða Tónstofu Valgerðar, um leið og hún fylgir þeim meginmarkmiðum sem eru skilgreind í aðalnámsskrá tónlistarskóla landsins.
Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna er samstarfsverkefni fimm tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu; Tónlistarskóla FÍH, Tónlistarskóla Garðabæjar, Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, Tónlistarskóla Kópavogs og Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar. Hljómsveitin var stofnuð haustið 2004 og hélt sína fyrstu tónleika í janúar 2005.
Tilgangur þessa sameiginlega verkefnis er að efla þjálfun ungra íslenskra hljóðfæraleikara í hljómsveitarleik með því að skapa til þess vettvang í nánu samstarfi tónlistarskólanna. Markmiðið var að festa í sessi Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna sem ákjósanlegt tæki til að sinna þessum mikilvæga þætti í þjálfun ungra hljóðfæraleikara. Ekki er á færi einstakra tónlistarskóla að starfrækja fullskipaða sinfóníuhljómsveit. Með stofnun Sinfóníuhljómsveitar tónlistarskólanna var bætt úr brýnni þörf, og er hljómsveitin nú mikilvægur þáttur tónlistarnema til þjálfunar í tónlistarleik undir handleiðslu viðurkenndra leiðbeinenda og stjórnenda.
Árið 2011 veitti Oddfellowreglan að tillögu Lista- og vísindanefndar styrki til þriggja myndlistarskóla fyrir börn og unglinga. Styrkirnir komu sér afar vel og gerðu skólunum mögulegt að taka inn margfalt fleiri ungmenni til náms en þeir hefðu ella haft fjármagn til.