Norðanmenn afkastamiklir...

Líknardeildin á fullum skrið
Líknardeildin á fullum skrið
Framkvæmdir við Líknardeildina héldu áfram um helgina og nú voru það norðanmenn sem  fjölmenntu suður yfir heiðar og tóku til hendinni þannig að eftir var tekið einsog kemur fram í pistli verkefnisstjóra eftir helgina

Kæru  Reglusystkin og tengiliðir !

11. vikan

Í  11. viku var lokið við uppsetningu og klæðningu á föstum niðurteknum lofum í húsi 9 og þrem í tengibyggingu, loft í gangi tengibyggingar afmarkað, veggjum í snyrtiherbergjum lokað og loftagrindur fyrir föst loft sett upp. Unnið var við spörtlun í húsi 9 og tengibyggingu og er um 80 % af þeirri vinnu lokið. Unnið var við raflagnir  pípulagnir og lokið við breytingar á ofnakerfi, unið við loftræsilagnir og múrverk. Gert var við sólbekki í tengibyggingu og eru þeir tilbúnir undir plastlögn. Unnið var við slípun á trégluggum í húsi 9 og tengibyggingu. Dúklagnir í húsi 9 voru undirbúnar. Þak á língeymslu var pappalagt. Sópað og  þrifið. Lokið var kjarnaborun í húsi 8. Umfangsmiklir efnisaðdrættir voru gerðir.  Efni í loftræsikerfi fyrir hús 8 flutt á staðinn.  Língeymsla slípuð undir sandspörtlun.

Laugardagurinn 17. mars og 18. mars 2012

Forspjall

Tengiliður st. nr. 15  Freyju hafði fyrir nokkrum vikum samband við verkefnisstjóra og hvað þá Akureyringa fýsa til vinnuferðar í Líknarheimilið.  Var því vel tekið af verkefnisstjórn og ákveðið að finna heilstætt verkefni, sem þeir gætu tekist á við. Var fljótlega ákveðið að það skyldi vera smíði milliveggja í húsi 8.
Var ákveðið að ráðast í verkið þann 17. mars.  Til þess að það væri unnt þurfti að flota gólf í húsinu ljúka kjarnaborun og síðast en ekki síst ljúka hönnun.
Var hönnuðum gert að skila uppdráttum ekki síðar en 15. mars og tókst það.  Jafnframt tókst að ljúka öllum undirbúningi fyrir verkið í húsinu.  Að hálfu Norðanmanna var ferðin undirbúin af kostgæfni. Þær teikningar sem til voru lesnar upp til agna, gerðir verkfæralistar, leigður farkostur og dregnar saman vistir.  Jafnframt var bakaradrengur,með 100 ára starfsreynslu, dubbaður upp í brytahlutverk.  Þess var gætt að allar vistir væru framleiddar á  Akureyri en talið ásættanlegt að nota sunnlenskt vatn enda þess ekki neytt nema eftir suðu.  Suður kominn var brytinn settur í embætti af Bergþórusystur.
Klukkan 17:00 föstudaginn 16. mars lagði stæsti hluti vinnuhópsins upp frá  Akureyri í 20 manna rútu með stóran aftanívagn lestaðan vistum verkfærum og viðlegubúnaði.  Nokkrir komu á einkabílum.  Í hópnum voru 28 br. úr  Freyju,  Rán og  Sjöfn. Kom hópurinn til  Reykjavíkur um kl. 23:00 á föstudagskvöldi. Undanfarar  tóku þá strax út vinnustaðinn, en þá höfðu byggingar- og verkefnisstjóri staðsett alla milliveggi og merk inn á gólffleti. Var ákveðið að hefja vinnu kl. 8:00 þann 17. mars.  Vinna var hafinn stundvíslega kl. 8:00 og rann þegar mikill móður á liðið sem stóð að verki látlaust til kl. 18:00. Voru afköst með ólíkindum. Ritara er ókunnugt  hvað liðið aðhafist  um nóttina, ( ekki munu allir hafa legið kyrrir ) en hvað sem það var hófst vinna að nýju kl. 8:00 og unnið látlaust til að ganga þrjú á sunnudeginum.

En þá er að geta afkastanna hjá  Akureyringum :

1.  Smíðaðir  220 m2 af milliveggjum. Blikkstoðir, tvöfalt gifs og steinullareinangrun. Þetta eru allir milliveggir í húsi 8 !
2.  Allar pípur fyrir raflagnir og stýrilagnir lagðar.
3.  Allar hreinlætislagnir lagðar í milliveggina.
4.  Brunaslanga innbyggð í millivegg og lagt frá henni niður í lagnakjallara.
5.  Plötusamskeyti í uppsettnum veggjum spörtluð og álímd, spartlað yfir skrúfur.
6.  Hitalögn lögð að loftræsikerfi í kjallara.
7.  Lagðar undirlagnir fyrir hreinlætiskerfi í lagnakjallara.
8.  Smíðaður skermveggur í húsi 9 og lagðar þar raflagnir niður í lagnakjallara.
9.  Spartlað í þrjú loft í húsi 9
10. Klæddir veggfletir í tengibyggingu.
11. Steypt í lagnagöt, múrað yfir lagnir, undir sólbekk og þröskuld í dyragati. Múrverk snyrt í dyragötum.
12. Þrjár sjúkrastofur, gangur í tengibyggingu og ýmsir viðgerðarfletir í húsi 9 grunnmálaðir.
13. Sett raflýsing í ris á húsi 8 ( í samstarfi við „heimamenn“ )
14. Að lokum var allt húsnæðið um 300 m2 sópað út.

Vinna sunnanmanna laugardaginn 17. mars og þann 18. mars

1.  Eldhúsinnrétting í rými 118 endursmíðuð og sett upp að mestu leyti.
2.  Lokið við uppsetningu á eftirhitara í loftræsikerfi í kjallara.
3.  Fastir gluggar í sólstofu glerjaðir. Skúlabræður.
4.  Sett upp einangrun í þak sólstofu að 2 / 3 , Skúlabræður.
5.  Sett upp þakrenna á sólstofu , Skúlabræður.
6.  Boruð lofræsigöt fyrir þak á tengibyggingu.
7.  Unnið við raflagnir í húsi 9 og tengibyggingu.
8.  Trégluggar slípaðir. Aðeins þrír eftir.
9.  Burðarbitar úr stáli settir upp á þrjár anddyrisbyggingar og burðarvirki úr tré forsniðið.
10. Settir upp burðarvinklar og byrjað á leiðurum vegna klæðningar á língeymslu að utan.
11. Grafið frá stífluðu þak niðurfalli.
12. Almenn tiltekt og þrif.

Annað

Afköst helgarinnar eru með ólíkindum.  Framlag norðanmanna er með svo stóru sniði að ritari, sem sjaldan er orðsvant, finnur nú ekki rétt lýsingaorð.
Ritari hafði gert sér miklar væntingar um afköst norðanmann fyrir ferðina. Voru þær af mörgum taldar óraunhæfar og skefjalaus bjartsýni.  Nú er komið á daginn að gert var langt umfram væntingar.  Það tókst með frábærum undurbúningi og samstillingu þeirra noraðnmanna, þeir komu sem hópur staðráðiinn í að gjörnýta tímann, sem tókst svo sannanlega. Vegna þess hve verið var afmarkað er hægt að áætla með sæmilegum hætti hve þetta vinnuframlag myndi kosta ef keypt væri og er það  a.m.k. um tveggja milljóna virði.  Akureyringar ! til hamingju með þennan frábæra árangur !  og hafið heila þökk fyrir !

Bið ykkur að upplýsa stúkur ykkar um framvindu mála.

m.b.k. í v.k. og s. 

Magnús Sædal , verkefnisstjóri
Borgartúni 12 - 14, 105 Reykjavík , s: 411-3000 ,fax : 411-3075
magnus@rvk.is
__________________________________