Jólastyrkir St. nr. 12, Skúla fógeta - 2023
Oddfellow stúkan nr. 12 Skúli fógeti afhenti á dögunum styrki til Hróa Hattar barnavinafélags, Hjálpræðishersins og skaðaminkunarverkefni Rauða krossins „Frú Ragnheiðar“.
Samtals voru styrkirnir að upphæð 1.500.000 krónur og fékk hver aðili 500.000 kr. í sinn hlut.
Hrói Höttur Barnavinafélag eru félagasamtök venjulegs fólks sem er umhugað um velferð grunnskólabarna. Félagið var stofnað í janúar 2011 og hefur það að markmiði að styðja fjárhagslega við bakið á þeim grunnskólabörnum sem líða skort á einhvern hátt og hafa ekki sömu lífsgæði og bekkjasystkyni þeirra.
Daglega koma til Hjálpræðishersins á milli 250-300 manns í heita máltíð, þeim að kostnaðarlausu, en það gera um 6000 máltíðir á mánuði. Að auki veitir Hjálpræðisherinn styrk fyrir rúmlega 1 milljón króna í hverjum mánuði í fata- og nytjamarkaði sína.
Frú Ragnheiður vinnur eftir hugmyndafræði skaðaminnkunar þar sem lögð er áhersla á að fyrirbyggja þann skaða og þá áhættu sem hlýst af notkun vímuefna fremur en að fyrirbyggja notkunina sjálfa. Frú Ragnheiður hefur það að markmiði að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og óafturkræfan skaða sem og að auka lífsgæði og bæta heilsufar einstaklinga sem nota vímuefni í æð með því að veita lágþröskuldaþjónustu í nærumhverfi einstaklinga.
Hefð er fyrir því hjá stúkunni að veita fyrir hver jól styrki til góðra málefna og þeirra sem minna mega sín í samfélaginu okkar. Vildu fulltrúar ofangreindra félagasamtaka koma á framfæri kærum jólakveðjum og þakklæti til Reglunnar fyrir veittan stuðning.