Jóla- og áramótakveðja frá Stórstúkunni
Kæru Reglusystkin!
Áramót er sá tími sem við horfum gjarnan yfir atburði liðins árs, en horfum einnig fram á veginn, setjum okkur ný markmið og
höfum væntingar um hvað nýja árið ber í skauti sér.
Árið sem nú er senn á enda hefur verið okkar kæru Oddfellowreglu farsælt að mörgu leiti. Nýir félagar hafa bæst í
hópinn en aðrir fallið frá, það er lífsins gangur. Í ljóði Tómasar Guðmundssonar, Hótel Jörð segir:
Tilvera okkar er undarlegt ferðalag,
við erum gestir og hótel okkar er jörðin.
Einir fara og aðrir koma í dag,
því alltaf bætast nýir hópar í skörðin.
Til þess að Oddfellowreglan vaxi og dafni, verðum við stöðugt að vinna að því að fá nýja hópa til að fylla í skörðin. Á árinu hafa fjölmörg ný Reglusystkin bæst í hópinn, við bjóðum þau velkomin í stórfjölskylduna og hvetjum þau til að vera virkir þátttakendur í starfinu. Við kveðjum með söknuði þau Reglusystkin sem fallið hafa frá á árinu og þökkum þeim fyrir sýnda vináttu og allt sem þau unnu Oddfellowreglunni til heilla.
Á árinu voru stofnaðar fjórar nýjar Regludeildir og við vígðum stórglæsilegt Regluheimili á Selfossi. Oddfellowstarfið hefur verið í miklum blóma og stjórnendur Regludeilda hafa lagt sig fram um að gera enn betur í mannræktar- og mannúðarmálum. Í lok ársins hafa flestar Regludeildir samþykkt að taka þátt í stækkun Líknardeildarinnar í Kópavogi undir forystu Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowreglunnar.
Strax á nýju ári taka nýir stjónendur við Regludeildum til næstu tveggja ára. Ég veit að þeir munu setja sér markmið um að vinna að velferð sinnar stúku eða búða. Markmiðið verði að gera betur, komast nokkuð á leið, eða eins og Jónas Hallgrímsson sagði í ljóðinu Ísland;
Það er svo bágt að standa í stað,
og mönnunum munar
annaðhvurt aftur á bak
ellegar nokkuð á leið.
Stórstúka hinnar óháðu Oddfellowreglu á Íslandi óskar öllum Reglusystkinum og fjölskyldum þeirra, gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Öllum embættismönnum og öðrum Reglusystkinum sem hafa starfað Oddfellowreglunni til heilla, færi ég bestu þakkir.
Bróðurlegast, í vináttu, kærleika og sannleika
Stefán B. Veturliðason,
stórsír.