Veðurmælingastöð rís í Urriðaholti
Fullkomin veðurmælingastöð verður reist í Urriðaholti, sunnanmegin í holtinu á opnu svæði vestan við Kauptún. Stöðin og búnaður henni tengdri skapar einstakt tækifæri til rannsókna og tilrauna á landsvísu. Þar verða m.a. sérhæfð og afar nákvæm tæki til mælinga vegna sjálfbærra regnvatnslausna, svo og úrkomu á einnar mínútu fresti, í fyrsta sinn á Íslandi.
Sjálfbærum regnvatnslausnunum er beitt í Urriðaholti til að draga úr álagi á fráveitukerfi og viðhalda um leið heilbrigðum og sjálfbærum vatnsbúskap Urriðavatns. Til að koma í veg fyrir að vatnasvæði þess raskist vegna byggðarinnar er allt ofanvatn af þökum, götum og görðum (regn og snjór) látið renna niður í jarðveginn til að líkja eftir ferlum náttúrunnar. Þannig sígur vatnið í jörðu og berst til Urriðavatns og votlendisins.
Veðurmælingastöðin verður hluti af rannsóknarmiðstöð sem Háskóli Íslands heldur utan um. Ávinningurinn af uppbyggingu rannsóknarmiðstöðvarinnar felst meðal annars í þeim vísindalegu rannsóknum sem hægt verður að gera á virkni sjálfbærra regnvatnslausna. Tækifæri skapast einnig til langtímavöktunar á veðurfari sem innifelur þætti sem skipta sköpum í fráveituhönnun, t.d. regn, hiti, sólarorka og snjóalög. Þá gefur veðurmælingastöðin möguleika á miðlun veðurfarsgagna til rannsakenda sem áhuga hafa á nákvæmum veðurfarsgögnum af höfuðborgarsvæðinu.
Til að tryggja farsæla uppbyggingu blágrænna regnvatnslausna á Íslandi er þörf á meiri eftirfylgni og vöktun á veðurfari í íslensku þéttbýli samhliða því að byggja upp reynslu og þverfræðilega þekkingu á þessu sviði. Rannsóknarmiðstöðin í Urriðaholti er því mikilvægur vettvangur í því samhengi.
Samhliða þessum samningi var undirritaður þjónustusamningur milli Garðabæjar og Veðurstofu Íslands um rekstur á sjálfvirku veðurstöðinni.
Hvers vegna í Urriðaholti?
Urriðaholt er fyrsta BREEAM umhverfisvottaða hverfið á Íslandi og fyrsta hverfið þar sem sjálfbærar (blágrænar) regnvatnslausnir voru innleiddar sem aðallausn á ofanvatni til verndar Urriðavatni. Það er einnig fyrsta hverfið á heimsvísu þar sem slíkar regnvatnslausnir hafa verið innleiddar á jafn norðlægri breiddargráðu og í jafn miklum landhalla. Hverfið þykir eftirbreytnivert alþjóðlegt dæmi um farsæla innleiðingu þeirra og hefur þegar vakið athygli vegna þessa. Því þótti kjörið að nýta Urriðaholtið sem rannsóknarvettvang fyrir vísindalegar rannsóknir á blágrænum regnvatnslausnum, og miðla niðurstöðum úr þeirri vinnu jafnt innan- sem utanlands.