Landsmót Oddfellowa í golfi

Kæru Oddfellowsystkini

Landsmót Oddfellowa í golfi fer fram á Garðavelli á Akranesi þann 15. ágúst nk.  Oddfellowstúkurnar á Akranesi standa fyrir mótinu og gengur allur rekstrarafgangur af því til líknarsjóða stúknanna tveggja, St. nr. 8 Egils og Reb.st. nr. 5 Ásgerðar.

Nú hefur verið opnað fyrir skráningu á mótið á http://www.golf.is og hvetjum við í undirbúningsnefndinni kylfinga innan Oddfellowreglunnar og maka þeirra að skrá sig sem fyrst.  Mótsgjald er 5.000 kr. og greiðist í golfskálanum á mótsdag.  Glæsileg verðlaun eru í boði, sjá hér.  Ræst verður út af 1. og 10. teig frá kl. 8-10 og aftur frá kl. 12:30-14. 

 Lokahóf verður kl. 19 í Oddfellowhúsinu á Akranesi þar sem verðlaunaafhending fer fram og dregið verður úr skorkortum.  Matseðill: Lambalæri með rjómasveppasósu, bökuðum kartöflum, hrásalati og grænmeti. Kaffi og marengsterta í eftirrétt.  Verð á lokahófið er 5.000 kr. á mann.  Greiða þarf fyrir lokahófið inn á bankareikning 0186-05-060679 kt. 530586-1549 tímanlega fyrir mót og í síðasta lagi þann 13. ágúst.  Takmarkaður sætafjöldi, fyrstur kemur – fyrstur fær.

Sett hefur verið upp Facebook síða fyrir mótið, sem við hvetjum þátttakendur og aðra áhugasama til að tengjast.  Á síðuna verða settar inn upplýsingar eftir því sem þörf er á og þátttakendur geta sent fyrirspurnir sem svarað verður á síðunni.

 Garðavöllur á Akranesi mun skarta sínu fegursta í sumar í tilefni af 50 ára afmæli Golfklúbbsins Leynis sem á og rekur völlinn. Í tilefni af afmæli klúbbsins verður Íslandsmótið í höggleik haldið á vellinum þremur vikum fyrir landsmótið okkar. Fyrirséð er að mikil fjölmiðlaumfjöllun verður um mótið þannig að við getum fylgst með árangri bestu kylfinganna á Íslandi á þessum velli og hugsað okkur hvernig við myndum leysa úr sömu aðstæðum og við sjáum hjá þeim.

 Á Akranesi eru fjölbreyttir afþreyingarmöguleikar sem við hvetjum gesti okkar til að kynna sér, sjá Götukort af Akranesi, Upplýsingamiðstöð Akraneskaupstaðar, Akranesviti, Garðalundur, Safnasvæðið, Langisandur, Jaðarsbakkalaug, Ýmsir veitingastaðir o.fl. 

Verið velkomin á Akranes.

Fyrir hönd Undirbúningsnefndar fyrir Landsmót Oddfellowa í golfi 2015,

Bergþór Guðmundsson, formaður