Egilsstaðir - Reglustarfið í blóma.
Það er framar björtustu vonum en einungis 3 ár eru liðin síðan stúkurnar voru stofnaðar og Regluheimili vígt á Egilsstöðum. Afar gott fólk hefur valist til að sinna því „frumkvöðlastarfi“ sem upphaf landvinninga Oddfellowreglunnar á Austurlandi hefur fylgt. Það ríkir því góður andi yfir öllu Reglustarfi og ótrúlegt að sjá hvað bræður og systur hafa tileinkað sér starfið á smekklegan og fumlausan hátt. Stórembættismenn höfðu á orði að á Austurlandi væri valinn maður í hverju rúmi.
Þá er mikill kraftur í starfinu og nýlega festu stúkurnar kaup á nýju framtíðar húsnæði sem er staðsett við Fagradal. Stílhrein og falleg bygging sem á eftir að verða starfi Oddfellowreglunnar á Austurlandi mikil lyftistöng og sönnun þess að þar fer kraftmikið fólk sem lætur ekki hlutina vaxa sér í augum. Gestum að sunnan var boðið að skoða nýtt Regluheimili og sýndar voru teikningar og skipulag hússsins en br. Einar Ólafsson arkitekt í st. nr. 24 Hrafkatli freysgoða er aðalhönnuður Regluheimilisins, en hann nýtur aðstoðar br. Magnúsar H. Ólafssonar arkitekst úr st. nr. 8, Egill sem hefur langa og góða reynslu af skipulagi Regluheimila okkar. Fyrir stutta kynningu í húsinu tók hvl. stórsír Stefán B. Veturliðason til máls og lýsti mikilli ánægju með allt Reglustarf á Austurlandi og ekki síður þann kraft og áræði sem fylgdi Reglustarfinu á Egilsstöðum með byggingu nýs heimilis. Ferðin Austur var afar ánægjuleg og tókst í alla staði vel .