Uppbygging í Hlaðgerðarkoti
Oddfellowar hafa styrkt uppbyggingu og starfsemi Samhjálpar í meðferðarheimilinu Hlaðgerðarkoti í Mosfellsbæ með beinum fjárframlögum og á annan hátt undanfarin ár. Þannig mætti stjórn Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowreglunnar í Hlaðgerðarkot í janúar 2019 með gjafabréf að andvirði 20 milljónir króna vegna uppbyggingar á staðnum.
Í 200 ára afmælishófi Oddfellowa í Reykjavík 27. apríl 2019 afhenti reglan Samhjálp 20 milljónir króna til viðbótar til að ljúka yfirstandandi framkvæmdum sem staðið hafa yfir í áföngum í Hlaðgerðarkoti.
„Stuðningur Oddfellowa er ómetanlegur. Við höfum tekið í notkun eldhús, matsal og fyrirlestrarsal í nýju húsi. Núna er unnið að innréttingum þar sem áður var matsalur og í byrjun september tökum við í notkun 11 af alls 16 nýjum og vistlegum herbergjum vistmanna.
Án aðkomu Oddfellowreglunnar hefði þetta ekki verið hægt. Svo einfalt er nú það. Starfsmenn og skjólstæðingar Samhjálpar eru reglunni óendanlega þakklátir fyrir stuðninginn,“ segir Vörður Leví Traustason, framkvæmdastjóri Samhjálpar.
Vistmenn í Hlaðgerðarkoti eru nú 30 talsins og komast mun færri að en vilja og þurfa. Það segir sína sögu að til að mynda á árinu 2018 voru þar 172 vistmenn, þrír af hverjum fjórum á aldrinum 20 til 40 ára. Þá þurfti að vísa frá 665 umsóknum,“ segir Vörður Leví og bætir við:
„Uppbygging og breytingar í Hlaðgerðarkoti gjörbreyta aðstæðum hjá okkur til hins betra, þökk sé Oddfellowum og öðrum sem vilja okkur vel.“