Fjölbýlishús Kvennaathvarfsins
„Við höfum fengið byggingarleyfi og erum í samningaviðræðum við verktaka um framkvæmdina. Þetta er stærsta einstaka verkefnið sem Samtök um kvennaathvarf hafa tekið sér fyrir hendur frá upphafi og verður auðvitað til þess að við söfnum miklum skuldum sem verður að standa við að greiða.
Gjöf Oddfellowa í vor kemur sér því vel. Henni fylgdu falleg orð um áræði sem lýsa vel þeirri vinnu sem væntanlegir íbúar hússins eiga fyrir höndum. Við þökkum rausnarskap og hlý orð Oddfellowreglunnar í garð athvarfsins og okkar fólks,“ segir Eygló Harðardóttir, verkefnisstýra hjá Kvennaathvarfinu.
Samtökin búa sig undir að reisa á höfuðborgarsvæðinu fjölbýlishús með 18 íbúðum og sameiginlegri aðstöðu fyrir væntanlega íbúa. Kostnaðaráætlun hljóðar upp á um 400 milljónir króna.
Á hátíðasamkomu í tilefni af 200 ára afmæli Oddfellowreglunnar í apríl 2019 var Kvennaathvarfinu veittur fjárstyrkur, 32 milljónir króna, til að kosta tvær íbúðir í væntanlegu fjölbýlishúsi sem hýsa mun áfangaheimili Kvennaathvarfsins. Eygló og Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, og tóku við gjöfinni með þökkum.
„Þarna verður þjónusta með nýju sniði,“ segir Eygló. „Við rekum áfram neyðarathvarf Kvennaathvarfsins með óbreyttu sniði en þarna bætist við annars stigs úrræði fyrir konur sem þurfa frekari aðstoð og stuðning til lengri tíma. Ætla má að þær komi til með að búa væntanlegu fjölbýlishúsi í eitt til þrjú ár eftir atvikum.“